Saga lögmannsstofunnar Fortis nær aftur til ársins 1973 þegar Lögmannsstofa Gylfa Thorlacius tók til starfa. Árið 1976 hóf Svala Thorlacius, eiginkona Gylfa, einnig lögmannsstörf á stofunni og var nafni hennar þá breytt í Lögmannsstofu Gylfa og Svölu Thorlacius. S. Sif Thorlacius og Kristján B. Thorlacius gengu síðar til liðs við stofuna.

Lögmannsstofan var upphaflega til húsa í Borgartúni, flutti þaðan í Austurver við Háaleitisbraut en síðar í Hús verslunarinnar. Lögmannsstofan flutti á Laugaveg 71 árið 1990 en í núverandi húsnæði að Laugavegi 7 árið 1998.

Lögmannsstofan Fortis var stofnuð á grunni Lögmannsstofu Svölu og Gylfa Thorlacius árið 2001. Orðið FORTIS er latneskt að uppruna og þýðir sterkur en merking orðsins vísar þó oftast til hugrekkis og staðfestu.

Gylfi og Svala Thorlacius létu af störfum á skrifstofunni á árinu 2018 og eru núverandi eigendur Kristján B. Thorlacius hrl., Sif Thorlacius hdl. og Tinna Björk Gunnarsdóttir lrl.

Lögmenn Fortis hafa um árabil sinnt margs konar lögmannsþjónustu fyrir fyrirtæki, félagasamtök og opinbera aðila. Meðal viðskiptavina stofunnar má nefna stéttarfélög, sveitarfélög, fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, félög í verslunarrekstri, fasteignafélög, banka og fjármálastofnanir. Hafa lögmenn stofunnar mikla þekkingu á málum á sviði félaga-, stjórnsýslu- og vinnuréttar.

Lögmenn þeir sem starfa á stofunni hafa einnig mikla reynslu af réttaraðstoð við einstaklinga, t.d. í fjölskyldumálum, vegna skilnaða eða skipta á dánarbúum, gerð kaupmála og erfðaskráa og vegna kaupa og sölu á fasteignum.

Lögmenn skrifstofunnar hafa ennfremur skipt fjölmörgum þrotabúum og aðstoðað fyrirtæki og einstaklinga í tengslum við gjaldþrotaskipti, bæði kröfuhafa og skiptaþola.

Auk ofangreinds hafa lögmenn Fortis sérhæft sig í uppgjöri slysamála og skaðabóta- og vátryggingarétti og hafa mikla reynslu af málflutningsstörfum fyrir héraðsdómstólum, Landsrétti og Hæstarétti.

 

Áherslur Fortis

Fagmennska

Lögmenn Fortis leggja sig fram við að gæta allra hagsmuna viðskiptavina eins og frekast er unnt, veita þeim góða þjónustu og virða trúnað.

Áreiðanleiki

Í starfsemi Fortis er lögð áhersla á traust, áreiðanleika og virðingu í öllum samskiptum við viðskiptavini.

Þekking og reynsla

Lögmenn Fortis hafa víðtæka þekkingu og reynslu af úrlausn lögfræðilegra álitaefna, rekstri dómsmála, samningagerð og annarri réttaraðstoð.